Útgáfa » Fréttir
Vernd hugverka - Lykill að árangri í nýsköpun
30. janúar 2024
Eitt það mikilvægasta sem frumkvöðlar og nýsköpunarfyrirtæki þurfa að gæta vel að er að vernda hugverk sem verða til við þróun á nýrri vöru eða þjónustu. Það má m.a. gera með skráningu einkaleyfa, vörumerkja og hönnunar og með því að umgangast verðmætar upplýsingar sem viðskiptaleyndarmál. Það er mikilvægt að huga að vernd hugverka snemma í nýsköpunarferlinu, en ekki bíða með það þangað til vara eða þjónusta er tilbúin á markað. Öflug hugverkavernd styrkir stöðu nýsköpunarfyrirtækja gagnvart fjárfestum, samstarfs- og samkeppnisaðilum og það er oft vernd hugverka sem greinir árangursrík fyrirtæki frá öðrum.
Einkaleyfi veita öfluga vernd
Líklega eru einkaleyfi verðmætustu hugverkaréttindi nýsköpunarfyrirtækja og fjölmörg dæmi eru um að nýsköpunarfyrirtæki byggi starfsemi sína og vöxt á öflugri einkaleyfavernd. Má til dæmis nefna Össur, Kerecis og Lauf Cycling. Fjárfestar horfa líka mjög til þess hvort nýsköpunarfyrirtæki hafi tryggt sér, eða í það minnsta sótt um einkaleyfi á sinni tækni.
Einkaleyfi eru veitt fyrir uppfinningar; tæknilegar lausnir á vandamálum og veita einkarétt til að nýta uppfinninguna, banna það öðrum eða leyfa öðrum að nýta hana t.d. með nytjaleyfi. Hægt er að fá einkaleyfi á ýmiss konar búnaði, aðferðum, afurðum og notkun. Uppfinningar sem einkaleyfi eru veitt fyrir þurfa alls ekki að vera flóknar og sem dæmi má nefna að verðmætt einkaleyfi heilbrigðistæknifyrirtækisins Nox Medical, sem fyrirtækið stóð í áralöngum málaferlum til að verja í Bandaríkjunum og Evrópu, er á litlum, einföldum plaststykkjum sem sett eru á enda einnota öndunarskynjunarbelta, skila góðri rafleiðni, auðvelda uppsetningu beltanna á sjúklinga og henta vel í einnota framleiðslu fyrir lágmarkskostnað.
Einkaleyfi gilda almennt í tuttugu ár frá umsóknardegi og þau eru ávallt lands- eða svæðisbundin. Einkaleyfi sem gefið er út á Íslandi gildir aðeins á Íslandi en einkaleyfi veitt hjá Evrópsku einkaleyfastofunni (EPO) geta tekið gildi í öllum 39 aðildarríkjum stofnunarinnar, þ.m.t. á Íslandi. Frá því síðastliðið sumar er einnig hægt að sækja um eitt evrópskt einkaleyfi hjá EPO, sem gildir í flestum ríkjum Evrópusambandsins. Einkaleyfisumsóknir eru ávallt birtar 18 mánuðum eftir umsóknardag.
Skilyrði fyrir því að einkaleyfi sé veitt er að uppfinningin sé ný á heimsvísu, hún sé frumleg og hagnýtanleg. Fyrir nýsköpunarfyrirtæki er sérstaklega mikilvægt að gæta að því að trúnaður ríki um uppfinningu áður en sótt er um einkaleyfi, því ef upplýsingar um uppfinninguna hafa verið gerðar opinberar fyrir umsóknardag, telst uppfinningin ekki ný. Þetta þýðir t.d. að ekki má birta vísindagreinar um uppfinningar sem ætlunin er að sækja um einkaleyfi fyrir, fyrr en eftir að sótt hefur verið um einkaleyfið og ekki má kynna þær t.d. væntanlegum fjárfestum eða samstarfsaðilum, nema að viðkomandi hafi undirritað formlega trúnaðaryfirlýsingu.
Annað sem nýsköpunarfyrirtæki þurfa að gæta sérstaklega að varðandi einkaleyfi er að þau gangi ekki á rétt eða veitt einkaleyfi annarra og þau hafi það sem kallað er „freedom to operate“ á því sviði sem þau starfa. Ef nauðsynlegt er að nýta einkaleyfisvarða tækni annarra fyrirtækja þarf að gera leyfissamninga við viðkomandi fyrirtæki og mögulega greiða leyfisgjöld.
Það þarf að vanda gerð umsókna um einkaleyfi til að tryggja að mögulegt einkaleyfi verji viðkomandi uppfinningu eins vel og mögulegt er. Miklar formkröfur eru gerðar til einkaleyfisumsókna og því mikilvægt að leita aðstoðar sérfræðinga á sviði hugverkaréttinda til að tryggja að þeim sé mætt. Hér á landi má t.d. leita aðstoðar félaga í Félagi einkaleyfissérfræðinga (FEIS) eða Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa (FUVE).
Að sækja um einkaleyfi er ekki einfalt mál og einkaleyfisvernd í mörgum löndum er ekki ódýr. Það þarf því að vanda til verka og taka ígrundaða og vel upplýsta ákvörðun um hvaða uppfinningar sé rétt að sækja um einkaleyfi fyrir.
Viðskiptaleyndarmál eru stundum valkostur við einkaleyfi
Viðskiptaleyndarmál eru upplýsingar sem njóta ákveðinnar lagalegrar verndar ef þau hafa viðskiptalegt gildi vegna þess að þau eru leyndarmál og ef gripið hefur verið til formlegra ráðstafana til að halda þeim leyndum. Ef uppfinning er flókin og ekki er einfalt að endurgera hana getur verið kostur að halda henni leyndri sem viðskiptaleyndarmáli frekar en að sækja um einkaleyfi fyrir henni. Þá er einnig mögulegt að vernda hluti sem ekki eru einkaleyfishæfir, svo sem uppskriftir, hugbúnað eða viðskiptaáætlanir með því að meðhöndla þá sem viðskiptaleyndarmál. Kosturinn við viðskiptaleyndarmál umfram einkaleyfi er að þau eru aldrei birt almenningi, þau renna aldrei út og kosta minna. Ókosturinn er hins vegar að aldrei má slaka á formlegri vernd á upplýsingunum og lagaleg vernd er ekki eins öflug og á einkaleyfum.
Til að viðhalda viðskiptaleyndarmálum geta fyrirtæki t.d. sett trúnaðarákvæði í ráðningarsamninga starfsmanna og gert trúnaðarsamninga við samstarfsaðila. Einnig er mikilvægt að takmarka aðgengi að þeim upplýsingum sem teljast til viðskiptaleyndarmála svo aðeins þau sem þurfa upplýsingarnar geti nálgast þær. Upplýsingar sem liggja á glámbekk eða eru á allra vitorði innan fyrirtækis njóta ekki lagalegrar verndar sem viðskiptaleyndarmál.
Vörumerki eru meðal verðmætustu eigna fyrirtækja
Vörumerki eru tákn sem notuð eru til að auðkenna vörur og þjónustu. Með skráningu tryggir eigandi sér einkarétt á notkun vörumerkis fyrir ákveðnar vörur og þjónustu og getur bannað notkun á eins eða líku merki fyrir þær vörur og þjónustu sem skráningin nær yfir og fyrir sambærilegar vörur og þjónustu. Vörumerkjaskráning gildir í 10 ár frá umsóknardegi og hægt er að endurnýja skráningu til 10 ára í senn, eins oft og eigandi þess óskar.
Mikilvægt er, ekki síst fyrir frumkvöðla, að velja fyrirtækjum sínum, vörum og þjónustu skráningarhæf auðkenni og vera með vörumerkjamál á hreinu allt frá byrjun. Það er algengur misskilningur að góð vörumerki lýsi þeirri vöru og þjónustu sem einstaklingur eða fyrirtæki býður upp á. Þessu er þveröfugt farið og lýsandi vörumerki fást almennt ekki skráð. Nafn á borð við Stefnumótaappið fengist t.d. líklega ekki skráð fyrir app á borð við Tinder og það er ólíklegt að einföld teikning af bíl fengist skráð sem merki fyrir leigubílaþjónustu. Það er ekki talið rétt að hægt sé að eigna sér orð eða tákn sem almennt eru notuð af þeim sem stunda viðskipti í viðkomandi geira eða þau þurfa nauðsynlega að nota, t.d. til þess að lýsa hvaðan varan/þjónustan kemur. Það hefur ósjaldan komið fyrir að íslensk fyrirtæki hafi valið nafn á vöru eða þjónustu og útbúið allt markaðsefni, en svo hafi komið ljós að nafnið hafi annað hvort verið óskráningarhæft vegna þess að það lýsir viðkomandi vöru eða þjónustu eða jafnvel að svipað merki hafi verið til skráð og í eigu annarra. Það ætti því að vera hluti af markaðsrannsókn fyrir nýjar vörur og þjónustu að kanna skráningarhæfi viðkomandi vörumerkja á viðeigandi mörkuðum.
Það er einfalt og alls ekki kostnaðarsamt að sækja um skráningu vörumerkis á Íslandi á vef Hugverkstofunnar og í Evrópu á vef Hugverkastofu Evrópusambandsins, EUIPO. Mikilvægt er að sækja um skráningu vörumerkis á þeim mörkuðum þar sem ætlunin er að markaðssetja vörur og þjónustu, enda líta t.d. dreifingaraðilar, fjárfestar og aðrir samstarfsaðilar iðulega til þess hvort að réttur á vörumerkjum sé tryggður. Það er líka mikilvægt að fyrirtæki eigi sjálft sín vörumerki en láti ekki t.d. dreifiaðilum eða öðrum aðilum eftir skráningar, því sambönd geta súrnað og það getur verið erfitt að vinda ofan af skráningum óviðkomandi aðila á vörumerkjum.
Hönnun má vernda með skráningu
Hægt er að vernda nýja og sérstæða hönnun með skráningu. Skráning nær aðeins til útlits hönnunarinnar en ekki virkni og veitir einkarétt til að nýta hönnun, leyfa öðrum að nýta hana, t.d. með nytjaleyfi og banna það öðrum. Skráning gildir í fimm ár í senn og hægt er að endurnýja hana til alls 25 ára. Dæmi um hönnun sem gæti verið góð hugmynd að skrá er útlit á umbúðum, útlit á notendaviðmóti í appi, húsgögn, skartgripir, nytjalist, fatnaður o.s.frv.
Ekki er gerð rannsókn á skráningarhæfi hönnunar við skráningu og það er á ábyrgð eiganda skráningar að gæta réttar síns vegna annarra skráninga sem eigandi telur ganga á sinn rétt. Hönnunarvernd veitir ekki jafn öfluga vernd og einkaleyfi eða skráð vörumerki en getur þó verið mjög góð viðbót við slíka vernd, sem og við höfundarétt.
Það er mikilvægt fyrir nýsköpunarfyrirtæki sem byggja á hönnun að sækja um skráningu á viðkomandi mörkuðum til að koma í veg fyrir að aðrir framleiði og markaðssetji samskonar hönnun undir sínu nafni. Eins þarf að ganga formlega frá samningum varðandi eignarrétt á hönnun vöru og þjónustu áður en farið er út í markaðssetningu.
Höfundarétt þarf ekki að skrá
Höfundaréttur er óskráður réttur sem verður til við sköpun verks, svo sem bókmennta, tónlistar, myndlistar, höggmynda, ljósmynda o.fl. Höfundaréttur verndar þó ekki einungis listræn verk, heldur getur hann einnig verndað tæknilega þætti, svo sem forritunarkóða og hönnunarútlit, sem eru grundvallarþættir í mörgum nýsköpunarverkefnum. Að höfundaréttur sé óskráður þýðir að hvorki þarf að sækja um hann né skrá sérstaklega.
Höfundaréttur skiptist í tvennt; í sæmdarrétt eða höfundarheiður, sem tilheyrir höfundinum ávallt og í fjárhagslegan rétt sem höfundur getur framselt öðrum eða veitt leyfi til að nota. Höfundaréttur helst þar til 70 ár eru liðin frá andláti höfundar.
Fyrir nýsköpunarfyrirtæki er t.d. mikilvægt að ganga frá formlegum samningum varðandi höfundarétt þar sem það á við, t.d. varðandi hönnun vörumerkja og umbúða.
Höfundaréttur er á ábyrgð menningar- og viðskiptaráðuneytisins en ýmis rétthafasamtök veita leiðbeiningar og ráðgjöf á þessu sviði.
Frekari upplýsingar á vef Hugverkastofunnar
Á vef Hugverkastofunnar er að finna almennar upplýsingar og fræðslu um vernd hugverkaréttinda. Þar er líka hægt að panta almenna og sértæka ráðgjöf frá sérfræðingi án endurgjalds. Stofnunin getur þó ekki veitt lagalega ráðgjöf né vilyrði um skráningu. Einnig er hægt að kaupa samanburðarleit fyrir vörumerki hjá stofnuninni og samtalsleit með einkaleyfisrannsakanda hjá Nordic Patent Institute sem leitar kerfisbundið að þekktri tækni í einkaleyfagagnagrunnum, í samtali við þjónustukaupa.
Í heimi stöðugrar nýsköpunar er vernd hugverka ekki bara valkostur, hún er nauðsyn. Það er þess vegna rík ástæða til að hvetja nýsköpunarfyrirtæki til að gera hugverkavernd að mikilvægum þætti í sínu vaxtar- og þróunarferli.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.