Viðskiptaleyndarmál

Viðskiptaleyndarmál geta verið ýmiss konar upplýsingar sem eru verðmætar fyrirtækjum og miklu máli skiptir að þeim sé haldið leyndum. Upplýsingarnar geta bæði verið flóknar og afar einfaldar. Hér má til dæmis nefna reiknirit (e. algorithm) annars vegar og matar- og drykkjaruppskriftir hins vegar. Viðskiptaleyndarmál gegna mikilvægu hlutverki fyrir samkeppnishæfni fyrirtækja, nýsköpun, rannsóknir og þróun, enda liggur oft mikil vinna og fjárútgjöld að baki viðskiptaleyndarmálum.

Hvenær eru upplýsingar viðskiptaleyndarmál?
Svo upplýsingar geti talist viðskiptaleyndarmál verða þær að uppfylla ákveðin skilyrði. Upplýsingarnar mega ekki vera almennt þekktar og ekki má vera auðvelt fyrir aðila, sem fjalla venjulega um tegund upplýsinganna, að nálgast þær. Upplýsingarnar þurfa jafnframt að hafa viðskiptalegt gildi, eða verðmæti, vegna þess að þær eru leyndarmál. Loks þarf sá sem ræður löglega yfir upplýsingunum að hafa gert eðlilegar ráðstafanir til að halda þeim leyndum.

Viðskiptaleyndarmál má vernda með trúnaðarsamningum
Viðskiptaleyndarmál má vernda með trúnaðarsamningum

Hvaða upplýsingar eru ekki viðskiptaleyndarmál?
Reynsla og færni sem starfsmenn hafa hlotið í hefðbundnum störfum sínum teljast ekki til viðskiptaleyndarmála. Það sama á við um upplýsingar sem eru almennt þekktar eða auðvelt er að nálgast.

Hvernig má passa upp á viðskiptaleyndarmál?
Á meðal ráðstafana sem fyrirtæki getur gripið til má nefna trúnaðarákvæði í ráðningarsamningum starfsmanna og gerð trúnaðarsamninga við samstarfsaðila fyrirtækisins. Jafnframt getur verið mikilvægt fyrir fyrirtæki að takmarka aðgengi að þeim upplýsingum sem teljast til viðskiptaleyndarmála svo aðeins þeir sem þurfa upplýsingarnar geti nálgast þær.

Í hnotskurn:

  • Óskráður réttur

  • Hægt að framselja