Jafnréttisáætlun Hugverkastofunnar 2021-2024

Jafnréttisáætlun þessi tekur til starfsfólks Hugverkastofunnar, að undanskildu starfsfólki faggildingarsviðs, og miðar að því að gera stofnunina að góðum og eftirsóknarverðum vinnustað þar sem jafnrétti, jafnræði og vellíðan starfsfólks er höfð í fyrirrúmi. Áætluninni er ætlað að leiðbeina starfsfólki og stuðla að gagnkvæmum skilningi milli starfsmanns og vinnuveitanda um jafnréttismál. Með jafnréttisáætlun þessari uppfyllir stofnunin skyldu sína sem kveðið er á um í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020 (hér eftir nefnd jafnréttislög), og öðrum lögum og reglum er snúa að jafnrétti. Við umfjöllun um jafnréttismál og úrlausn þeirra skulu gildi stofnunarinnar, fagmennska, þekking og traust, ávallt höfð að leiðarljósi.

Markmið
Hugverkastofan leggur áherslu á jafnan rétt kynjanna til launa, stöðuveitinga og starfa. Starfsfólk Hugverkastofunnar skal jafnframt njóta sömu tækifæra, réttinda og starfsaðstæðna óháð kynþætti, þjóðerni, trúarbrögðum, litarhætti, efnahag, ætterni eða öðrum ómálefnalegum þáttum, eftir því sem við á. Eftirfarandi eru markmið Hugverkastofunnar:

  1. Starfsfólk skal njóta sömu launa og kjara fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf, óháð kyni.
  2. Starf sem laust er til umsóknar skal standa öllum opið, óháð kyni.
  3. Lögð er áhersla á að starfsþjálfun og endurmenntun standi öllu starfsfólki til boða, óháð kyni.
  4. Lögð er áhersla á að starfsfólk geti samræmt vinnutíma og fjölskyldulíf eins og kostur er.
  5. Starfsfólki skal auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna brýnna fjölskylduaðstæðna.
  6. Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni er ekki liðin á vinnustaðnum.

I. Launajafnrétti

Við ákvörðun launa skal þess gætt að óútskýrður munur sé ekki á launum starfsfólks. Konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu í þjóðskrá skulu greidd jöfn laun og starfsfólk skal njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf sbr. 6. gr. jafnréttislaga. Samkvæmt jafnréttislögum er starfsfólki Hugverkastofunnar ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef það kýs og er yfirmanni eða öðrum sem koma að ákvörðun launa óheimilt að óska trúnaðar starfsmanns um launakjör sín.  

Markmið: Starfsfólk skal njóta sömu launa og kjara fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf, óháð kyni 

Aðgerð 

Tímarammi 
 

Árangursmælikvarði 

Ábyrgð 
 

Framfylgja markmiðum jafnlaunastefnu og viðhalda jafnlaunavottun í samræmi við jafnlaunastaðal ÍST 85:2012. 
 

Alltaf 

 

Óútskýrður kynbundinn launamunur verði enginn og heildarfrávik ekki meiri en 4%. 
 

Forstjóri 

Launagreining framkvæmd þar sem gerð er tölfræðileg greining á því hvort kynbundinn munur sé á launum og öðrum kjörum starfsfólks. Niðurstöður eru kynntar fyrir starfsfólki. 
 

Á fyrsta ársfjórðungi  

Fylgni milli starfaflokkunar og þeirra launa sem greidd eru (R2) verði ekki lægri en 90%.  

 

Sviðsstjóri rekstrarsviðs 

Leiði úttekt í ljós kynbundinn mun á launum eða öðrum kjörum kynnir viðeigandi ábyrgðaraðili aðgerðir til umbóta. 
 

Innan tveggja mánaða frá úttekt 

Óútskýrður kynbundinn launamunur verði enginn og heildarfrávik ekki meiri en 4%. 
 

Forstjóri 

Telji starfsmaður sig beittan kjaramisrétti á grundvelli kyns gerir hann stjórnanda sínum rökstudda grein fyrir því.  
 

Innan tveggja mánaða frá því að rökstuðningur hefur borist 

 

Forstjóri 

Árlega verður haldinn samráðsfundur um jafnlaunakerfið.  

Í febrúar ár hvert 

 

Forstjóri og sviðsstjóri rekstrarsviðs 

II. Laus störf og framgangur í starfi

Starf sem laust er til umsóknar skal auglýst og skulu jafnréttissjónarmið metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið við stöðuveitingar. Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið jafnt konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá sbr. 12. gr. jafnréttislaga. Hvetja skal einstaklinga óháð kyni til að sækja um auglýst störf. Ef tveir eða fleiri jafnhæfir einstaklingar sækja um auglýsta stöðu gengur sá að öðru jöfnu fyrir við ráðningu sem er af því kyni sem er í minnihluta í slíkum störfum á Hugverkastofunni.  

Markmið: Starf sem laust er til umsóknar skal standa öllum opið, óháð kyni 

Aðgerð 

Tímarammi 

Árangursmælikvarði 

Ábyrgð 
 

Öll störf eru auglýst ókyngreind. Hvetja skal alla til að sækja um auglýst störf óháð kyni. 
  

Alltaf 

Mat á umsóknum með hliðsjón af hæfni. 

Sviðsstjóri rekstrarsviðs 

Hluti af árlegri rýni stjórnenda er samantekt upplýsinga um kyngreint yfirlit starfsfólks. Niðurstöður eru kynntar starfsfólki. 
  

Í febrúar ár hvert 

 

Sviðsstjóri rekstrarsviðs 

Ef hallar á kynin ber að gæta sérstaklega að jafnréttissjónarmiðum við nýráðningar eða tilfærslur í störfum þegar einstaklingar eru jafn hæfir og nýta þá tækifærið til að rétta hlut þess kyns sem hallar á. Sama gildir um starfs- eða vinnuhópa sem starfsfólk er skipað í.  
 

Alltaf 

Kynjahlutföll á vinnustað og í vinnuhópum hverju sinni. 

Forstjóri og sviðsstjórar 

Í árlegri viðhorfskönnun skal kanna viðhorf starfsfólks til að sjá hvernig framgangi starfsfólks sé háttað. Komi í ljós að starfsfólki finnist vera kynbundinn halli eða ef kynin hafa ólík viðhorf til stöðunnar ber að gera frekari greiningar og grípa til ráðstafana ef þörf krefur.  

Á fyrsta ársfjórðungi ár hvert 

Hlutfallsleg bæting ef hallar á einhvern hóp starfsfólks. 

Sviðsstjóri rekstrarsviðs 

III. Starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun

Allt starfsfólk Hugverkastofunnar nýtur sömu möguleika til starfsþjálfunar, endurmenntunar og símenntunar og til að sækja námskeið er haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf, sbr. 12. gr. jafnréttislaga. Ákvarðanir um úthlutun námsleyfa skulu byggjast á málefnalegum forsendum og jafnræðis skal gætt. 

Markmið: Lögð er áhersla á að starfsþjálfun og endurmenntun standi öllu starfsfólki til boða, óháð kyni. 

Aðgerð 

Tímarammi 

Árangursmælikvarði 

Ábyrgð 
 

Í árlegri viðhorfskönnun skal kannað hvort starfsfólk hafi fengið hvatningu og tækifæri til að sækja sér sí- og endurmenntun. Komi í ljós að starfsfólki finnist vera kynbundinn halli eða ef kynin hafa ólík viðhorf til stöðunnar ber að gera frekari greiningu og grípa til ráðstafana.  

 

Á fyrsta ársfjórðungi ár hvert 

Hlutfallsleg bæting ef hallar á einhvern hóp starfsfólks.  

Sviðsstjóri rekstrarsviðs 

Komi í ljós óútskýranlegur kynbundinn munur á sókn starfsfólks í endurmenntun og starfsþjálfun ber stjórnendum að gera starfsfólki grein fyrir því hvernig slíkur munur verður leiðréttur.  

Innan tveggja mánaða frá því að greining og niðurstöður liggja fyrir 

. Stjórnendur 

IV. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Starfsfólki skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu óháð kyni sbr. 13. gr. jafnréttislaga, svo sem með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum og annarri vinnuhagræðingu, eftir því sem við verður komið og þörf er á. Leitast er við að taka tillit til einstaklingsbundinna aðstæðna starfsfólks eftir því sem unnt er og gera skal ráð fyrir að starfsfólk óháð kyni njóti sveigjanleika til að sinna fjölskyldum sínum. Sama á við um forföll vegna veikinda barna. Óheimilt er að láta fæðingar- og foreldraorlof, eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði, hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir um framgang í starfi, t.a.m. endurmenntun, uppsögn eða vinnuaðstæður. Leitast er við að koma til móts við óskir starfsfólks um tímabundið hlutastarf vegna endurkomu úr barnseignar- eða veikindaleyfi og einnig sem leið til að draga úr vinnu í aðdraganda starfsloka eða lífeyristöku.   

Markmið: Lögð er áhersla á að starfsfólk geti samræmt vinnutíma og fjölskyldulíf eins og kostur er. Starfsfólki skal auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna brýnna fjölskylduaðstæðna. 

Aðgerð 

Tímarammi 

Árangursmælikvarði 

Ábyrgð 
 

Starfsfólki er kynnt viðverustefna Hugverkastofunnar auk þeirra úrræða sem í boði eru til að auðvelda samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs, s.s. veikindadaga barna, sveigjanlegan vinnutíma, fjarvinnu og aðrar einstaklingsbundnar lausnir.  
 

Á fyrsta ársfjórðungi ár hvert 

Viðhorfskönnun gerð um upplifun starfsfólks varðandi samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Komi í ljós að viðhorf eða reynsla kynjanna sé ólík skal gera frekari greiningu og grípa til ráðstafana.  
 

Forstjóri 

Kynna fyrir starfsfólki og sérstaklega verðandi foreldrum réttindi og skyldur sem þau hafa gagnvart vinnustaðnum. 

Á fyrsta ársfjórðungi ár hvert 

Viðhorfskönnun gerð um upplifun starfsfólks. 

Sviðsstjórar 

V. Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni

Allt starfsfólk á rétt á því að komið sé fram við það af virðingu og að það sæti ekki áreitni eða ofbeldi af kynbundnum og kynferðislegum toga. Það skal gert með því að innleiða áætlun um meðferð mála sem byggja á lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, og kynna þær starfsfólki. Sjá nánari umfjöllun í STE 008 Stefna gegn einelti, kynbundinni- og kynferðislegri áreitni og ofbeldi í gæðahandbók.  

Markmið: Einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni er ekki liðin á vinnustaðnum.   

Aðgerð 

Tímarammi 

Árangursmælikvarði 

Ábyrgð 
 

Fræðsla um einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundna- og kynferðislega áreitni og meðferð slíkra mála fyrir starfsfólk. Jafnframt verður slík fræðsla hluti af nýliðakynningu Hugverkastofunnar. 
 

Á fyrsta ársfjórðungi ár hvert 
 

Viðhorfskönnun gerð um upplifun starfsfólks. 

Stjórnendur 

Stefna og aðgerðaráætlun Hugverkastofunnar gegn einelti, kynbundnu ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni verði endurskoðuð og birt starfsfólki. 
 

Árlega 

Á fyrsta ársfjórðungi ár hvert. 

Stjórnendur 

Ef upp koma mál er varða einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundna- eða kynferðislega áreitni á vinnustaðnum er tekið strax á málunum.  

Alltaf 

Samkvæmt stefnu og aðgerðaráætlun. 

Forstjóri 

Ágreiningsmál 
Ef upp kemur ágreiningur vegna jafnréttismála er hægt að vísa honum til forstjóra eða sviðsstjóra rekstrarsviðs.  

Eftirfylgni og endurskoðun 
Unnið verður að stöðugum umbótum á stefnunni, henni fylgt eftir og brugðist við ef ástæða er til. Endurskoðun stefnunnar fer reglulega fram, en þó ekki sjaldnar en einu sinni á ári í tengslum við yfirferð á jafnlaunakerfinu er tengist jafnlaunavottun. Slík yfirferð fer fram í janúar og febrúar ár hvert. Yfirferð skal ljúka tveimur mánuðum áður en gildistími eldri áætlunarinnar rennur út. Mikilvægt er að markmið og aðgerðaráætlanir séu í samræmi við daglegt starf á Hugverkastofunni. Jafnréttisáætlun Hugverkastofunnar gildir í þrjú ár frá samþykki.