Umhverfis- og loftslagsstefna Hugverkastofunnar

Tilgangur og framtíðarsýn
Umhverfis- og loftslagsstefnan og framkvæmd hennar er liður í daglegu starfi Hugverkastofunnar. Með því að draga úr álagi á umhverfið og vekja áhuga á innra umhverfisstarfi leggur Hugverkastofan sitt af mörkum til betra samfélags. Hugverkastofan hefur sjálfbæra þróun og vernd umhverfisins að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Á þann hátt leggur Hugverkastofan sitt af mörkum til að mæta þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta þörfum sínum. Stefna þessi tekur mið af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamkomulaginu og yfirlýsingu þeirra um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnishlutleysi. Hugverkastofan vill leggja sitt af mörkum til að markmiðum Parísarsamkomulagsins sé náð og taka þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar. 

Umfang og ábyrgð
Umhverfis- og loftslagstefnan á við um alla starfsemi Hugverkastofunnar, mannvirki og framkvæmdir. Undir hana fellur allur rekstur og viðhald, innkaup, nýting auðlinda, efnanotkun og endurnýting og meðferð úrgangs. Stefnan nær einnig til samgangna starfsfólks til og frá vinnu og á vegum Hugverkastofunnar og fræðslu og miðlunar á umhverfismálum. Forstjóri er ábyrgur fyrir framkvæmd stefnunnar. Allt starfsfólk framfylgir henni og hefur hana að leiðarljósi í störfum sínum. Umhverfis- og loftslagsstefnan skal endurskoðuð reglulega af stjórnendum. 

Markmið
Rekstri Hugverkastofunnar skal hagað þannig að hann falli að sjónarmiðum umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar og valdi sem minnstri kolefnislosun og álagi á auðlindir og umhverfi. Hugverkastofan mun í jöfnum skrefum, allt til ársins 2030, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á ársverk um 40% miðað við árið 2019. Hugverkastofan mun fyrst og fremst leggja áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri en kolefnisjafna alla eftirstandandi losun með kaupum á vottuðum kolefniseiningum frá og með árinu 2020.

Aðgerðir
Hugverkastofan mun frá og með árinu 2020 draga úr kolefnislosun og neikvæðum umhverfisáhrifum vegna eftirfarandi þátta: 

Samgangna

Aðgerðir

  • Leitast skal við að velja umhverfisvænar leiðir í samgöngum þegar ferðast er á vegum Hugverkastofunnar, t.d. óska eftir vistvænum bílum hjá leigubílastöðvum, samnýta leigubíla og ganga styttri vegalengdir.
  • Hugverkastofan hvetur starfsfólk til að kjósa fjarfundi þegar aðstæður leyfa.
  • Starfsfólki gefst kostur á að gera samgöngusamning þar sem starfsfólk sem skuldbindur sig til að ferðast með vistvænum hætti til og frá vinnu er umbunað. 

Mælikvarðar

  • Kolefnislosun vegna aksturs starfsmanna. 
  • Kolefnislosun vegna flugferða starfsmanna. 
  • Fjöldi samgöngusamninga. 

Úrgangur

Aðgerðir

  • Flokka og ganga frá úrgangi í samræmi við leiðbeiningar um Græn skref og samkvæmt flokkunarkerfi þjónustufyrirtækis. 
  • Stöðugt skal draga úr pappírsnotkun, m.a. með því að prenta báðum megin á blöðin og gæta þess að prenta hvorki né ljósrita að óþörfu. 
  • Kynningarefni er eingöngu gefið út rafrænt. 
  • Ekki skal notast við blöðrur eða plastvarning til að kynna stofnunina. 
  • Hjá Hugverkastofunni er einnota borðbúnaður og einnota umbúðum haldið í lágmarki. 

Mælikvarðar

  • Magn úrgangs á stöðugildi. 
  • Kolefnislosun vegna úrgangs. 
  • Endurvinnsluhlutfall. 

Nýting auðlinda

Aðgerðir

  • Fara skal sparlega með heita vatnið, t.d. láta vatn ekki renna að óþörfu. 
  • Gætt er að því að ekki sé notað rafmagn að óþörfu t.d. slökkt á rafmagnstækjum og ljósum í lok vinnudags eða þegar ekki er nauðsynlegt að hafa kveikt. 

Mælikvarðar

  • Rafmagn – kWst á stöðugildi, kWst á fermetra. 
  • Heitt vatn - rúmmetri af vatni á fermetra, rúmmetri af vatni á stöðugildi. 
  • Kolefnislosun vegna rafmagns. 

Efnanotkun

Aðgerðir

  • Allar ræstingarvörur sem notaðar eru hjá Hugverkastofunni skulu vera merktar með viðurkenndu umhverfismerki (týpa 1). 
  • Ræstiþjónustan skal vera vottuð með viðurkenndu umhverfismerki (týpa 1). 
  • Farið er sparlega með efni og efnavörur, t.d. við uppþvott og ræstingu. 

Mælikvarðar

  • Hlutfall umhverfisvottaðra ræsti- og hreinsiefna sem stofnunin kaupir. 
  • Hlutfall umhverfisvottaðrar ræstiþjónustu sem stofnunin kaupir. 

Innkaup

Aðgerðir

  • Við innkaup skal tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða. Ef vörur eða þjónusta eru sambærilegar að öðru leyti ber að velja þann kost sem telst síður skaðlegur umhverfinu. 
  • Velja skal umhverfismerktar vörur í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um vistvæn innkaup og nota rammasamninga Ríkiskaupa. 
  • Allur tölvu- og skrifstofubúnaður skal vera með viðeigandi umhverfis- og orkusparandi merkingar. 

Mælikvarðar

  • Vistvæn innkaup.


Eftirfylgni
Umhverfis- og loftslagsstefna Hugverkastofunnar er rýnd árlega á fundi stjórnenda. Markmið eru uppfærð með tilliti til þróunar á milli ára sem fram kemur í grænu bókhaldi. Upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað til starfsfólks og á heimasíðu Hugverkastofunnar. 

Áherslur Hugverkastofunnar í umhverfis- og loftslagsmálum 2021-2023
Fyrsta tímabil umhverfis- og loftslagsstefnu Hugverkastofunnar nær yfir árin 2021-2023. Til stuðnings stefnunnar liggur fyrir aðgerðaráætlun þar sem koma fram mælanleg markmið. Helstu áherslur í umhverfis- og loftslagsmálum frá 2021-2023 eru eftirfarandi. 

  • Hugverkastofan innleiðir öll fimm Grænu skrefin. 
  • Hugverkastofan heldur yfirlit yfir helstu „grænu“ lykiltölur í rekstri og skráir og vaktar árangurinn. 
  • Starfsfólk Hugverkastofunnar fær minnst tvisvar sinnum á ári fræðslu um umhverfismál. 
  • Hugverkastofan kolefnisjafnar losun sína með ábyrgum hætti. 
  • Miðla þekkingu í samvinnu við atvinnulífið og stuðla þannig að jákvæðri framþróun umhverfismála. 
  • Fylgjast stöðugt með markmiði Hugverkastofunnar sem varðar kolefnislosun.