Hugverkastofan
Hugverkastofan er opinber stofnun undir yfirstjórn menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. Stofnunin tók til starfa 1. júlí 1991 undir heitinu Einkaleyfastofan og tók þá við hlutverki einkaleyfa- og vörumerkjadeildar iðnaðarráðuneytisins. Þann 1. júlí 2019 var nafni stofnunarinnar breytt og ber stofnunin nú heitið Hugverkastofan.
Skipulag Hugverkastofunnar skiptist í tvö megin svið; rekstrarsvið og hugverka-og stjórnsýslusvið, auk skrifstofu forstjóra. Þá heyrir starfsemi faggildingarsviðs undir stofnunina en sviðið er faglega og fjárhagslega aðskilið annarri starfsemi.
Skipulag og starfssvið stofnunarinnar markast af auglýsingu nr. 187/1991 og reglugerð nr. 188/1991. Hlutverk stofnunarinnar er að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðarmerki og önnur hliðstæð réttindi er kveðið er á um í lögum, reglugerðum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar.
Stofnuninni ber að veita einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði. Þá ber stofnuninni að stuðla að því að ný tækni og þekking sem felst í skráðum hugverkaréttindum verði aðgengileg almenningi.