Einkaleyfi
Einkaleyfi eru veitt fyrir tæknilegar uppfinningar sem eru nýjar á þeim degi sem sótt er um vernd og nógu ólíkar því sem til er nú þegar. Uppfinningar eru t.d. tæki og vélbúnaður, aðferð við að framleiða vörur eins og matvörur eða lyf en ekki viðskiptahugmyndir, leikir eða listmunir. Hugbúnað má vernda ef hann framkvæmir eitthvað tæknilegt.
Uppfinningar þurfa alls ekki að vera flóknar og þær mega byggja á einhverju sem nú þegar er til ef úr því verður eitthvað nýtt og gagnlegt. Ef sýna á uppfinninguna fyrir umsóknardag er gott að gera leyndarsamninga. Uppfinning sem hefur verið birt fyrir þann tíma getur skemmt fyrir sjálfri sér – hún er ekki lengur ný.
Vernd
Tæknilegar uppfinningar má vernda með einkaleyfum sem sótt er um hjá Hugverkastofunni eða geyma þær sem viðskiptaleyndarmál. Ef einkaleyfi er veitt gildir það í 20 ár frá umsóknardegi, mögulega lengur ef um lyf er að ræða. Vernd veitir einkarétt til að nýta uppfinninguna eða leyfa öðrum að nýta hana (nytjaleyfi) og banna það öðrum.
Eftir að uppfinningin er birt mega aðrir nota hana sem grunn að öðrum uppfinningum.
Þannig miðlar einkarétturinn uppfinningum til samfélagsins, öllum til hagsbóta.
Umsóknarferli
Áður en sótt er um er skynsamlegt að kanna hvort eitthvað eins eða svipað er nú þegar til. Uppfinningamaður getur sótt um sjálfur en ef umsækjandi er fyrirtæki þarf alltaf að nefna uppfinningamann/menn í umsókn. Þegar umsóknargjöld hafa verið greidd fer fram rannsókn. Þegar niðurstaða liggur fyrir er hægt að sjá hvort eitthvað þarf að laga eða hvort hægt er að veita einkaleyfi. Ferlið getur tekið allt frá nokkrum mánuðum og upp í 3–5 ár eftir því hversu flókin umsóknin er.
Þegar umsókn er 18 mánaða eru upplýsingar um hana birtar í Hugverkatíðindum og geta þá aðrir séð um hvað uppfinningin snýst. Þá er einnig hægt að leggja inn ábendingu gegn umsókn, til dæmis ef uppfinningin er nú þegar til.
Árgjöld
Til þess að viðhalda umsókn eða veittu einkaleyfi þarf að greiða árgjöld samkvæmt gjaldskrá. Árgjöld eru greidd fyrir eitt ár í senn. Ef einkaleyfi fellur úr gildi vegna þess að árgjald var ekki greitt er hægt að óska eftir endurveitingu réttinda.
Vernd í öðrum löndum
Umsókn sem lögð er inn hér gildir aðeins á Íslandi en hægt er að nota hana til þess að skapa rétt í öðrum löndum með því að nýta sér forgangsrétt. Hægt er að sækja um í einstaka löndum ef ætlunin er að markaðssetja t.d. vöru bara í 1–3 ríkjum. Einnig er hægt að nýta sér alþjóðlega umsóknarkerfið (PCT) til þess að velja fleiri ríki eða sækja um hjá Evrópsku einkaleyfastofunni (EPO) og velja þau lönd sem eru aðilar að því kerfi.
Við val á markaðssvæði er gott að hafa í huga bæði hugsanlega markaðssetningu og þau ríki sem samkeppnisaðilar velja eða velja ekki. Þá er gott að leita sér aðstoðar hjá sérfræðingum á þessu sviði áður en löndin eru valin.
Sérstaklega um lyf
Ferli vegna lyfjauppfinninga er lengra en annarra uppfinninga. Þau þarf að rannsaka sérstaklega svo þau séu hæf til notkunar fyrir menn og dýr. Þess vegna er hægt að fá lengri vernd fyrir þau en aðrar uppfinningar með svokölluðum viðbótarvottorðum (e. SPC).
Með viðbótarvottorði getur bæst allt að 5 ára verndartími ofan á 20 árin og 6 mánuðir í viðbót ef lyfið er fyrir börn. Þrátt fyrir að lyf sé verndað með viðbótarvottorði á Íslandi geta aðrir en eigandi framleitt lyfið ef þeir ætla að flytja það til landa þar sem lyfið nýtur ekki verndar eða þar sem vernd er runnin út. Alla slíka framleiðslu þarf þó að tilkynna Hugverkastofunni.
Eftir veitingu einkaleyfis
Veitt einkaleyfi eru birt í Hugverkatíðindum. Í 9 mánuði frá veitingu geta aðrir andmælt veitingunni, t.d. á þeim grundvelli að uppfinningin sé ekki ný. Hugverkastofan skoðar andmælin og tekur ákvörðun um hvort einkaleyfið skuli halda gildi sínu eða ekki.
Allar ákvarðanir Hugverkastofunnar í andmælamálum eru birtar og þeim er alltaf hægt að áfrýja til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar.
Í hnotskurn:
Tæknileg uppfinning
sem er ný á umsóknardegi
Einkaréttur til að nýta uppfinningu
og banna öðrum það
Hægt að framselja einkaleyfi
eða leyfa öðrum að nýta það
Getur gilt í 20 ár
og mögulega lengur ef það er fyrir lyf
Gildir aðeins á Íslandi
en hægt að sækja um erlendis líka
Einkaleyfi
54
landsbundnar umsóknir
árið 2023
993
staðfest evrópsk einkaleyfi
árið 2023
9.599
einkaleyfi í gildi
í árslok 2023
91
íslenskt einkaleyfi í gildi
í árslok 2023