Innlent samstarf
Þjónusta Hugverkastofunnar er valkvæð þótt hún sé mikilvæg og starfsemi stofnunarinnar hefur því frá upphafi mótast í nánu samstarfi við viðskiptavini og tengda aðila. Markmiðið er ávallt það að tryggja bestu mögulegu þjónustu á hverjum tíma og stuðla að aukinni þekkingu og skilvirkari nýtingu á hugverkum hér á landi.
Mikið og öflugt samstarf er við fagráðuneyti, sem og önnur ráðuneyti og stofnanir í málefnum sem snerta hugverkarétt, ýmist á alþjóðavettvangi eða í víðu samhengi. Þá fundar Hugverkastofan reglulega með Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa (FUVE) og Félagi einkaleyfasérfræðinga (FEIS) bæði til að miðla upplýsingum og fá hugmyndir um hvernig stofnunin geti mætt þörfum viðskiptavina sem best.
Hugverkastofan á ennfremur í góðu sambandi við aðila í iðnaði, menntun, rannsóknum, nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi hér á landi, m.a. háskóla, Samtök iðnaðarins, Íslandsstofu og KLAK Icelandic Startups. Á hverju ári veitir stofnunin Nýsköpunarverðlaun Íslands í samvinnu við Rannís, Íslandsstofu og Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.
Þá leiðir stofnunin samstarfshóp sem hefur það að markmiði að auka vitund og samstarf um aðgerðir gegn brotum á hugverkaréttindum. Í hópnum sitja m.a. fulltrúar frá Skattinum, lögreglu, fagráðuneytum, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Lyfjastofnun, Neytendastofu og frá hagsmunasamtökum á sviði höfundaréttar, s.s. STEF, Myndstef, Frísk og SFH.