Hönnun
Hönnunarskráning verndar útlit vöru eða hluta af vöru, þ.e. lögun, liti, mynstur o.fl. Hönnun þarf að vera ný og ólík því sem til er þegar sótt er um skráningu en það skiptir þó máli á hvaða sviði hönnunin er hvernig þetta er metið. Ef hönnunin er t.d. dekkjamynstur er svigrúmið sem hönnuðurinn hefur lítið en mikið ef varan hefur ekki verið til áður.
Hönnun getur verið stök vara, hluti af vöru eða vörulína. Það sem skiptir máli ef sótt er um vernd er að myndirnar séu skýrar og sýni hönnunina vel.
Hönnunarvernd getur skipt sköpum þegar vernda þarf hönnun sem er ný og ólík því sem til er en hún er síður gagnleg ef um er að ræða smávægilega breytingu á því sem áður hefur verið hannað.
Vernd
Hönnun má vernda með umsókn um skráningu hjá Hugverkastofunni. Hönnun getur ekki notið verndar eingöngu á grundvelli notkunar hér á landi en höfundaréttur getur í einhverjum tilvikum átt við. Skráð hönnun getur notið verndar í allt að 25 ár. Skráð hönnun veitir einkarétt til að nýta hönnunina eða leyfa öðrum að nýta hana (nytjaleyfi) og banna það öðrum.
Umsóknarferli
Áður en sótt er um er skynsamlegt að kanna hvort eitthvað eins eða svipað er nú þegar til. Hönnuður getur sótt um sjálfur en ef umsækjandi er fyrirtæki þarf alltaf að nefna hönnuðinn í umsókn. Þegar umsóknargjöld hafa verið greidd er farið yfir formsatriði en rannsókn fer aðeins fram gegn gjaldi. Ferlið gengur fremur hratt fyrir sig og ef ekkert þarf að lagfæra er umsókn birt í Hugverkatíðindum.
Vernd í öðrum löndum
Umsókn sem lögð er inn hér gildir aðeins á Íslandi en hægt er að nota hana til þess að skapa rétt í öðrum löndum með því að nýta sér forgangsrétt. Hægt er að sækja um í einstaka löndum ef ætlunin er að markaðssetja t.d. vöru bara í 1–3 ríkjum. Einnig er hægt að nýta sér alþjóðlega umsóknarkerfið (ISDM) til þess að velja fleiri ríki í einu eða sækja um hjá Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) og velja þau lönd sem eru aðilar að því kerfi.
Við val á markaðssvæði er gott að hafa í huga bæði hugsanlega markaðssetningu og þau ríki sem samkeppnisaðilar velja eða velja ekki. Þá er gott að leita sér aðstoðar hjá sérfræðingum á þessu sviði áður en löndin eru valin.
Eftir skráningu hönnunar
Skráð hönnun er birt í Hugverkatíðindum. Eftir skráningu getur hver sem er, hvenær sem er, óskað eftir að hönnun verði afmáð, t.d. á þeim grundvelli að hún sé ekki ný. Hugverkastofan skoðar slíkar kröfur og tekur ákvörðun um hvort hönnunin skuli halda gildi sínu eða ekki. Allar ákvarðanir Hugverkastofunnar í ógildingarmálum eru birtar og þeim er alltaf hægt að áfrýja til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar.
Í hnotskurn:
Verndar útlit vöru
en ekki virkni hennar
Einkaréttur til að nýta hönnun
og banna öðrum það
Hægt að framselja hönnun
eða leyfa öðrum að nýta hana
Getur gilt í allt að 25 ár
Gildir aðeins á Íslandi
en hægt að sækja um erlendis líka
Hönnun
115
umsóknir
árið 2023
12
íslenskar umsóknir
árið 2023
1.429
hönnunarskráningar
í árslok 2023
89
íslenskar hönnunarskráningar
í árslok 2023