Vörumerki

Vörumerki eru tákn sem fólk og fyrirtæki í atvinnustarfsemi nota til að auðkenna sínar vörur og þjónustu. Skráð vörumerki tryggir eiganda þess einkarétt á notkun merkisins fyrir ákveðnar vörur og þjónustu og eigandi vörumerkis getur bannað notkun á eins eða líku merki fyrir þær vörur og þjónustu sem skráningin nær yfir.

Vörumerkjaskráning gildir í 10 ár frá þeim degi sem sótt var um skráningu vörumerkis. Að þeim tíma liðnum er hægt að endurnýja skráninguna til 10 ára í senn, eins oft og eigandi þess óskar.

Tegundir vörumerkja
Algengast er að vörumerki samanstandi af orðum, samblöndu orða og mynda eða einungis af myndum. Hins vegar geta vörumerki líka verið bókstafir, tölustafir, mynstur, litir og hljóð, svo nokkur dæmi séu tekin.

  • Orðmerki

    Orðmerki

  • Myndmerki

    Myndmerki

  • Orð- og myndmerki

    Orð- og myndmerki

  • Þrívíddarmerki

    Þrívíddarmerki

  • Þrívíddarmerki með orðhluta

    Þrívíddarmerki með orðhluta

  • Staðsetningarmerki

    Staðsetningarmerki

  • Mynsturmerki

    Mynsturmerki

  • Litamerki

    Litamerki

  • Hljóðmerki

    Hljóðmerki

  • Hreyfimerki

    Hreyfimerki

  • Margmiðlunarmerki

    Margmiðlunarmerki

  • Heilmyndarmerki

    Heilmyndarmerki

Er hægt að skrá hvaða vörumerki sem er? 
Gerðar eru ákveðnar kröfur til vörumerkja svo hægt sé að skrá þau. Fyrir því eru einkum sanngirnisrök í ljósi einkaréttarins sem fylgir skráningu vörumerkis. Svo vörumerki sé skráningarhæft þarf það að hafa sérkenni og geta greint vöru og þjónustu eins aðila frá vörum og þjónustu annarra aðila. Að sama skapi má vörumerki ekki lýsa vörunum eða þjónustunni sem það óskast skráð fyrir. Þannig er ólíklegt að vörumerki sem samanstendur af orðinu appelsína fengist skráð fyrir appelsínur. Loks má vörumerki, sem óskast skráð hérlendis, ekki vera ruglingslega líkt öðrum merkjum sem þegar eru skráð á Íslandi fyrir sömu eða sambærilegar vörur og þjónustu.

Félagamerki
Með skráningu félagamerkis geta félög eða samtök fengið einkarétt á sameiginlegu merki sem félagsmenn þeirra geta notað í sinni atvinnustarfsemi. Fyrir vikið geta einstaklingar ekki sótt um skráningu félagamerkis. Félagamerki eru í raun vörumerki og því eiga þær almennu kröfur sem gerðar eru til vörumerkjaumsókna einnig við um félagamerki. Í vörumerkjalögunum er hins vegar jafnframt gerð sú krafa að reglur um notkun félagamerkis fylgi með umsókn um skráningu þess. Ef breytingar verða á reglunum eftir skráningu þarf að tilkynna um þær til Hugverkastofunnar. Dæmi um reglur má finna hér.

Ábyrgðar- og gæðamerki
Þeir sem setja staðla, votta eða annast eftirlit með vörum eða þjónustu geta sótt um skráningu ábyrgðar- og gæðamerkis, þar á meðal einstaklingar.

Eins og félagamerki eru ábyrgðar- og gæðamerki í raun vörumerki og því eiga þær almennu kröfur sem gerðar eru til vörumerkjaumsókna einnig við um ábyrgðar- og gæðamerki. Í vörumerkjalögunum er hins vegar jafnframt gerð sú krafa að reglur um notkun ábyrgðar- og gæðamerkis fylgi með umsókn um skráningu þess. Ef breytingar verða á reglunum eftir skráningu þarf að tilkynna um þær til Hugverkastofunnar.

Umsóknarferli
Áður en sótt er um skráningu vörumerkis er skynsamlegt að skoða hvort merkið samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til vörumerkja svo hægt sé að skrá þau. Enn fremur er gagnlegt að kanna hvort eins eða svipað merki sé þegar skráð fyrir sömu eða svipaðar vörur eða þjónustu. Vörumerkjaleitarvél Hugverkastofunnar hefur að geyma öll þau vörumerki sem skráð eru á Íslandi. Rannsókn á skráningarhæfi merkja fer fram þegar umsóknargjöld hafa verið greidd. Ferlið tekur almennt um 8–10 vikur og ef ekkert þarf að lagfæra er vörumerki birt í Hugverkatíðindum.

Vernd í öðrum löndum
Vernd skráðra vörumerkja er landsbundin sem þýðir að vörumerki sem skráð eru á Íslandi njóta verndar á Íslandi. Því er mikilvægt að skrá vörumerki einnig í öðrum löndum ef markaðssetning er fyrirhuguð erlendis.

Eftir birtingu vörumerkis
Hægt er að leggja fram ábendingu til Hugverkastofunnar sem mælir gegn skráningu tiltekins vörumerkis. Slík ábending þarf að berast eftir að umsókn um skráningu merkisins hefur verið lögð inn og áður en merkið hefur verið birt. Eftir að vörumerki hefur verið birt í Hugverkatíðindum er hægt að andmæla skráningu þess innan tveggja mánaða frá birtingu. Þegar merki hefur verið skráð og andmælafrestur er liðinn er hægt að fara fram á að skráning merkis verði felld niður, ef skilyrðin fyrir niðurfellingu eru fyrir hendi. Hver sem er getur nýtt sér framangreind úrræði.

Í hnotskurn:

  • Auðkenni fyrirtækja

    t.d. orð, mynd, hljóð eða hreyfing

  • Einkaréttur til að nýta merki

    og banna öðrum það

  • Hægt að framselja vörumerki

    eða leyfa öðrum að nýta það

  • Ótímabundin vernd

    sem þarf að endurnýja á 10 ára fresti

  • Gildir aðeins á Íslandi

    en hægt að sækja um erlendis líka

Sækja um vörumerki

Vörumerki á Íslandi


4.043

umsóknir

árið 2023

742

íslenskar umsóknir

árið 2023

63.158

skráð vörumerki

í árslok 2023

7.431

skráð íslensk vörumerki

í árslok 2023