Höfundaréttur
Höfundaréttur er óskráður réttur sem verður til við sköpun verks. Verk sem njóta höfundaréttar eru t.d. bókmenntir, tónlist, myndlist, höggmyndir, ljósmyndir, tölvuforrit o.fl. Að höfundaréttur sé óskráður þýðir að hvorki þarf að sækja um hann né skrá.
Höfundaréttur skiptist í tvennt; í sæmdarrétt eða höfundarheiður, sem tilheyrir höfundinum ávallt og í fjárhagslegan rétt sem höfundur getur framselt öðrum eða veitt leyfi til að nota. Til þess að tryggja að rétturinn sé sannanlega til staðar er rétt að birta verkið með einhverjum hætti því erfitt getur verið að sýna fram á höfundarétt á óbirtum verkum. Höfundaréttur helst þar til 70 ár eru liðin frá andláti höfundar.
Hugverkastofan veitir aðeins almennar leiðbeiningar um höfundarétt. Höfundaréttur er á ábyrgð menningar- og viðskiptaráðuneytisins en ýmis rétthafasamtök veita leiðbeiningar og ráðgjöf á þessu sviði. Höfundaréttur tengist á ýmsan hátt þeim réttindum sem Hugverkastofan sér um og það má t.d. ekki skrá vörumerki sem felur í sér eitthvað sem verndað er með höfundarétti.
Í hnotskurn:
Höfundaréttarvarið efni
er t.d. tónlist, bækur og ljósmyndir
Óskráður réttur
sem verður til þegar verk er birt
Hægt að framselja höfundarétt
eða leyfa öðrum að nota verk
Gildistími höfundaréttar
er 70 ár frá láti höfundar sem lengst lifir