Útgáfa » Fréttir
Þorsteinn Loftsson og Einar Stefánsson tilnefndir til Evrópsku nýsköpunarverðlaunanna 2023
09. maí 2023
- Þróuðu meðferð án inngrips til þess að meðhöndla sjónudepilsbjúg af völdum sykursýki (DME) og bæta lífsgæði sjúklinga sem þjást af sjúkdómum í sjónhimnu
- Tæknin miðar að því að flytja lyf í formi augndropa í bakhluta augans frá yfirborði þess í stað þess að nota sprautunálar
Á heimsvísu þjást 37 milljónir manna af sjónudepilsbjúg af völdum sykursýki en það er helsta orsök blindu hjá sykursjúkum samkvæmt Alþjóðlegu sykursýkissamtökunum (IDF). Meðhöndlun sjónudepilsbjúgs og margra annarra augnsjúkdóma hefur hingað til falið í sér að sprauta lyfjum í bakhluta augans eða tímafreka og oft kostnaðarsama meðferð. Þorsteinn Loftsson og Einar Stefánsson þróuðu tækni sem gerir kleift að þróa lyf í formi augndropa sem hægt er að ferja í afturhluta augans. Með tækninni er lyfjum komið á vatnsleysanlegt form og hægt er að ferja þau í hefðbundnum augndropum á rétta staði djúpt í auganu. Þetta gerir meðferðina aðgengilega fyrir stærri hóp sjúklinga. Fyrir þessa uppfinningu eru Þorsteinn og Einar tilnefndir til Evrópsku nýsköpunarverðlaunanna 2023 í flokknum „Rannsóknir“, ásamt tveimur öðrum aðilum. Þeir voru valdir úr hópi 600 tilnefndra í ár.
Stuðningur við milljónir manna
Þorsteinn og Einar vonast til þess að umbylta því hvernig hægt er að veita milljónum sjúklinga meðferð við augnsjúkdómum og ná fyrr til þeirra, jafnvel á dreifbýlum svæðum og í þróunarríkjum. Helsta byltingin í aðferð þeirra snýr að sjúkdómum í sjónhimnu og bakhluta augans þar sem hægt er að nota dropa í framtíðinni í stað skurðígræða (surgical implants) eða sprautunála. Aðferðin virkar fyrir fjölda sjúkdóma sem hafa áhrif á sjónhimnu, þar á meðal sjónudepilsbjúg af völdum sykursýki. Jafnframt nýtist aðferðin í framhluta augans þar sem hægt er að nota OPTIREACH augndropana einu sinni í stað nokkurra skipta á dag.
Þorsteinn er bjartsýnn á möguleika uppfinningarinnar, sérstaklega hjá þeim sem nýlega hafa fengið sykursýki og á dreifbýlum svæðum eða þróunarríkjum.
„Hægt er að meðhöndla sjúklinga fyrr og þar sem þeir eru staðsettir og með þessari tækni er ekki aðeins verið að hætta að nota nálar heldur einnig að tryggja að meðferðin sé aðgengileg fyrir mun fleiri sjúklinga um allan heim en verið hefur.“
Að takast „hið ómögulega“
Þorsteinn starfaði í áratugi sem prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands og aðra háskóla fram til ársins 2020. Auk þess var hann einn stofnenda fyrirtækisins Oculis árið 2016. Meðstofnandi hans og samstarfsmaður, Einar Stefánsson, er prófessor emeritus við Háskóla Íslands og hefur verið yfirlæknir á augndeild Landspítalans frá árinu 1989. Einar segir uppfinningu þeirra félaga afrakstur áratugarannsókna.
„Nokkrir starfsfélaga okkar, sem mætti kalla helstu áhrifamenn á þessu sviði, hafa ítrekað fullyrt í ræðu og riti, jafnvel á síðustu 10 árum, að okkur hafi tekist hið ómögulega.“
Nokkrar klínískar rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna að þessi nýja tækni virkar. Félagarnir eru meðal þriggja aðila sem komnir eru í úrslit í flokknum „Rannsóknir“ í Evrópsku nýsköpunarverðlaununum í ár en viðurkenningin er veitt framúrskarandi frumkvöðlum fyrir uppfinningar sem hafa hlotið einkaleyfi í Evrópu. Tilkynnt verður um handhafa þessara og fleiri verðlauna Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) árið 2023 við hátíðlega verðlaunaathöfn 4. júlí 2023 í Valencia á Spáni. Verðlaunaafhendingin verður send út á netinu og er opin almenningi.
Hægt er að finna frekari upplýsingar um áhrif uppfinningarinnar, tækninnar og sögu uppfinningarmannanna hér.
Um Evrópsku nýsköpunarverðlaunin
Evrópsku nýsköpunarverðlaunin (European Inventor Award) eru ein virtustu verðlaunin á sviði nýsköpunar í Evrópu. Evrópska einkaleyfastofan (EPO) setti þau á fót árið 2006 með það að markmiði að heiðra einstaklinga og teymi sem hafa fundið lausnir við sumum af stærstu áskorunum okkar tíma. Óháð dómnefnd, sem samanstendur af aðilum sem áður hafa komist í úrslit verðlaunanna, velur þau sem komast í úrslit og verðlaunahafa. Dómnefndin leggur mat á uppfinningarnar og áhrif þeirra með tilliti til tæknilegrar framþróunar, þróunar samfélags og sjálfbærni og hagsældar. Allir uppfinningamenn, sem tilnefndir eru, þurfa að hafa hlotið einkaleyfi í Evrópu fyrir uppfinningar sínar. Streymt verður frá verðlaunaafhendingunni sem verður haldin þann 4. júlí 2023.
Um Evrópsku einkaleyfastofuna (European Patent Office, EPO)
Evrópska einkaleyfastofan er ein stærsta stofnun Evrópu í almannaþjónustu en þar starfa 6.300 manns. Höfuðstöðvarnar eru í München en einnig er stofnunin með skrifstofur í Berlín, Brussel, Haag og Vín. EPO var stofnuð með það að markmiði að styrkja samstarf á sviði einkaleyfa í Evrópu. Í gegnum miðstýrt einkaleyfaferli EPO geta uppfinningamenn fengið einkaleyfavernd í allt að 44 löndum á 700 milljóna manna markaði. Evrópska einkaleyfastofan er leiðandi á heimsvísu á sviði upplýsinga um einkaleyfi og leit að einkaleyfum. Ísland gerðist aðili að EPO árið 2004.