Útgáfa » Fréttir
Sólveig Ingólfsdóttir nýr sviðsstjóri faggildingarsviðs Hugverkastofunnar
11. júní 2024
Sólveig Ingólfsdóttir hefur verið ráðin sviðsstjóri faggildingarsviðs Hugverkastofunnar. Hún kemur frá sænsku faggildingarstofunni Swedac þar sem hún hefur undanfarin sex ár m.a. stýrt úttektum á faggiltum stjórnunarkerfum.
Auk þess að leiða faggildingarsviðið og starfa sem úttektaraðili mun Sólveig vinna við uppbyggingu faggildingar á Íslandi í samstarfi við starfsmenn sviðsins, stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila.
Sólveig hefur yfir þrjátíu ára reynslu af stjórnun gæðamála, lengst af hjá einkafyrirtækjum í Svíþjóð, m.a. hjá Arla Foods 1999-2018. Áður en hún flutti til Svíþjóðar starfaði hún sem gæðastjóri og verkefnastjóri í þróunarverkefnum, m.a. hjá Viking bruggi og Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins. Sólveig lauk meistaragráðu í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 1996.
Faggildingarsvið er faglega sjálfstætt svið innan Hugverkastofunnar sem heyrir undir menningar- og viðskiptaráðuneytið. Það er hinn opinberi faggildingaraðili á Íslandi og veitir faggildingu fyrir skoðunarstofur, prófunarstofur, kvörðunarstofur og vottunarstofur og er ábyrgt fyrir viðhaldi, breytingum á umfangi, tímabundinni niðurfellingu og afturköllun faggildingar í samræmi við viðeigandi staðla, lög og reglugerðir.